Alþýðuhúsið, Siglufjörður
07.06.-21.06.2020
Sýningartexti eftir Aldísi Arnardóttur
Á sýningunni Mynd eftirmynd er þremur ofnum málverkum teflt fram í samtali við einlita fleti sem málaðir eru beint á veggi sýningarrýmisins. Verkin mynda innsetningu í rýminu þar sem hefðir handverksins og málverksins mætast. Á sýningunni er vísað í hugmyndina um myndleif, þ.e. þegar horft er lengi á sama flöt og sjónum svo beint að hvítum vegg birtist óskýr eftirmynd þess sem horft var á en í andstæðum litum og birtustigi. Málaði flöturinn á veggnum er í lit sem er andstæða við aðallit vefsins og því einskonar myndbirting myndeifarinnar. Á sýningunni eru mörk hins sýnilega og efnislega könnuð og verkin velta upp spurningum um stöðu málverksins sem hlutar annars vegar og upplifunar hins vegar. Efnislegir eiginleikar verkanna vekja upp löngun til að snerta á sama tíma og sjónrænni skynjun áhorfenda er ögrað.

Installation view


