Það er með því að ljá heiminum líkama sinn sem listamaðurinn breytir heiminum í málverk. Til að skilja þessa ummyndun verðum við að hverfa aftur til hins eiginlega virka líkama – ekki líkamans sem tekur pláss eða er samsafn af ýmiss konar starfssemi heldur þess líkama sem bindur saman sjónskyn og hreyfingu.
Maurice Merleau-Ponty L’Œil et l’Esprit, 1961

Á sýningunni Mynd eftirmynd teflir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir fram þremur myndpörum sem samanstanda af ofnum málverkum og einlitum flötum sem málaðir eru beint á veggi sýningarrýmisins. Verkin mynda innsetningu í rýminu og hér mætast hefðir handverksins og málverksins. Í aldagamalli aðferð vefnaðar verður til samruni tveggja þráðaheilda, uppistöðu og ívafs. Uppistöðuna hefur Ingunn Fjóla handmálað með akrýlmálningu í vefstólnum, en saman við hana fléttar hún lituðum þráðum ívafsins sem ýmist eru úr ull eða hör. Utan um mjúkan textíllinn er málaður viðarrammi sem vekur upp hughrif um strangflatarmálverk og minimalisma sjöunda áratugs síðustu aldar.

Könnun á grunneiginleikum málverksins og þræðir í hinum ýmsu myndum hafa oft og tíðum verið áberandi í verkum Ingunnar Fjólu, allt frá stórum innsetningum sem áhorfandinn gengur inn í, til minni verka. Á undanförnum árum hefur hún fikrað sig meira og meira í átt til heimspekilegrar nálgunar fyrirbærafræðinnar í listsköpun sinni. Hvernig skynjum við listaverk – er það hluturinn sjálfur eða upplifunin af honum sem við skynjum? Er litur áþreifanlegur eða óáþreifanlegur – er hægt að snerta hann? Hvort hægt sé að meðtaka litinn og upplifa málverkið með líkamanum eru meðal þeirra spurninga sem leita á Ingunni Fjólu. Samkvæmt fyrirbærafræðinni veltur skynjun hlutar á því hvernig einstaklingurinn upplifir hann í gegnum líkamann, þar sem sami hluturinn getur birst á mismunandi hátt eftir einstaklingum.

Þessi nýju verk hafa víðfeðma tilvísun, í þeim koma fram andstæður líkamleikans og hins vélræna. Nákvæmlega málaður ramminn, þar sem pensilförin eru vart sjáanleg, heldur utan um hinn handofna flöt, þar sem för eftir hönd listamannsins og vinnuferlið eru sýnileg og tilviljanir og einstaka mistök brjóta upp hið reglubundna mynstur. Með því að handmála uppistöðuna meðan ofið er, tekst misvel að þekja þræðina og malerísk nálgun listamannsins verður áþreifanleg. Dauft málaður flöturinn á veggnum getur framkallað blekkingu í augum áhorfandans, er hann að horfa á myndleif (e. afterimage) eftir verkið við hlið þess eða málaðan flöt?

Myndleif er í raun skynvilla. Þegar horft er lengi á sama flöt og sjónum svo beint að hvítum vegg birtist myndleif flatarins, óskýr eftirmynd þess sem horft var á en í andstæðum litum og birtustigi. Ingunn Fjóla leikur sér hér með þessa blekkingu augans. Málaði flöturinn á veggnum er í lit sem er andstæða við aðallit vefsins. Stærð og hlutföll frummyndarinnar eru endurtekin í eftirmyndinni, en með því ímyndar Ingunn Fjóla sér hvernig myndleif verksins gæti litið út. En þá vaknar spurningin um hvort eftirmyndin sé í eðli sínu frummynd eða eftirmynd? Þar sem myndleif er í raun augnabliksskynvilla, sem birtist í sjónsviði áhorfenda, mætti segja að málaði flöturinn á veggnum sé eftirmynd ímyndaðrar eftirmyndar og  þar með jafn mikil frummynd og ofna málverkið sjálft. Ef horft er lengi á málaða flötinn gæti myndleif þess farið að birtast og leikurinn þannig haldið áfram þar sem áhorfendur sjá myndleif myndleifarinnar bregða fyrir í rýminu.

Á Mynd eftirmynd eru mörk hins sýnilega og efnislega könnuð og verkin velta upp spurningum um stöðu málverksins sem hlutar annars vegar og upplifunar hins vegar. Efnislegir eiginleikar verkanna vekja upp löngun til að snerta á sama tíma og sjónrænni skynjun áhorfenda er ögrað.

Aldís Arnardóttir