Erin Honeycutt um sýninguna Þú ert kveikjan / You are the Input í Listasafni Árnesinga

Á sýningunni Þú ert kveikjan kannar Ingunn Fjóla spennuna á milli reiðu og óreiðu á leikrænan hátt. Innsetningin er fyrst og fremst malerísk, að því gefnu að hægt sé að líta á kerfi mynstra sem malerískt fyrirbæri. Upplifun sýningargesta er hluti af alltumlykjandi kerfi verksins; kerfi sem gestir hafa áhrif þegar þeir ferðast um rýmið og bregðast við þeim vísbendingum sem Ingunn Fjóla hefur byggt inn í verkið. Ætlast er til þess að hreyft sé við innsetningunni, en hvernig sú tilfærsla fer fram veltir upp spurningum um sambandið milli röskunar og myndbyggingar verksins.

Fyrri verk Ingunnar Fjólu hafa að mestu verið málverk og innsetningar. Með því að nota ólík efni, sem á ófyrirsjáanlegan hátt ögra fagurfræðilegri upplifun áhorfenda og hvernig þeir skynja sýningarrýmið, fellir hún saman fyrirframgefnar upplýsingar sem augað nemur við hugmyndafræði sem talar til áþreifanleika líkamans. Áhorfandinn tekur þátt í abstrakt frásögn sem verður til úr ýmiskonar flötum og sjónarhornum. Málaðir fletir í höfundarverki Ingunnar Fjólu vísa í ýmsar áttir – stundum minna þeir á skilrúm eða göngupall en öðrum stundum á merki, svið eða skjá.

Á sýningunni Þú ert kveikjan geta gestir fært til hluti verksins þannig að kerfið kann að rofna eða breytast, allt eftir því hvernig maður skynjar mörkin milli reglu og óreglu. Allt rúmast innan þeirra hreyfinga sem áhorfendur leggja til. Í lok dags er verkið núllstillt með því að raða öllu aftur í sitt í upprunalega horf svo leikurinn geti hafist að nýju næsta dag og þannig dvelur innsetningin í stöðugu flæði milli reiðu og óreiðu.

Einn af hreyfanlegu þáttum verksins eru málaðir rammar sem gestir geta snúið um miðjuás, ramminn birtist því sem sem eitthvað sem áhorfendur hafa val um að setja mark sitt á. Með því er sett spurningamerki við að hvaða leyti rammar gegna stýrandi hlutverki í fagurfræðilegri upplifun almennt. Í stað þess að vera stýrandi þáttur verður ramminn hér hluti af margbreytilegri upplifun áhorfenda.

Annar hreyfanlegur þáttur eru fjölmargar rauðar kúlur á gólfi rýmisins en sterk nærvera þeirra flöktir á milli tvívíðra eiginleika málverks og þrívíðra eiginleika innsetningar. Rauðu kúlurnar gætu táknað einhverskonar hnapp, þar sem tilfærsla þeirra frá einum stað til annars gæti hrint af stað röð óvæntra breytinga sem sýningargestir vita ekki fyrirfram hvert leiðir. Þessar kringlóttu rauðu kúlur gætu jafnframt staðið fyrir alla heimsins hnetti og kúlur, svo ekki sé minnst á merkingar á kortum þar sem rauð doppa táknar hvar maður er staddur.

Innan um alla þessa hreyfanlegu þætti verða málverkin á veggjunum, í einlitum pastellit, að einhvers konar fasta; þeim óbifanlega þætti sem allt annað hverfist um, þar á meðal áhorfendur. Á sama hátt lítur listamaðurinn á málverkið sem fastann í hennar eigin sköpunarferli, grunninn þaðan sem allar hennar tilraunir spretta.

Myndbygging verksins breytist þegar áhofendur færa til hluti eftir margvíslegum og óendanlegum möguleikum. Þannig er Þú ert kveikjan malerískt verk en á hátt sem snýr upp á gamalgróna hugmynd um ósnertanleika og viðkvæmni málverksins. Gagnvirkni og stundum bein þátttaka hefur orðið áberandi þáttur í nýlegum verkum Ingunnar Fjólu. Fyrir henni er virkjun skynjunarinnar hluti af þessari þátttöku sem hún hefur enga beina stjórn á.

Í verkinu rennur gagnvirkni og fagurfræði saman á hátt sem vekur mann til umhugsunar um orsök og afleiðingu og þau áhrif sem fyrirbæri hafa á önnur fyrirbæri. Með því að bera kerfi og stærð verksins við stærð líkamans og fagurfræðilega upplifun okkar af verkinu, erum við vakin til umhugsunar um þau fjölmörgu kerfi heimsins sem á stærri skala stýra allri tilveru okkar.

Á tímum þegar ómögulegt er að sjá fyrir sér heim sem ekki er miðlað um gagnvirkt kerfi, vísar endurtekin uppröðun verksins í samspil óreiðu og skipulags í heimunum og þeirra kerfa sem sköpuð eru til að samþætta þessi andstæðu öfl. Endurstilling sýningarinnar ítrekar einnig hugmyndina um list sem samþættingarafl milli listhlutar og áhorfanda.

Líkt og í tilraunalist í upphafi tuttugustu aldar, er hér að finna tilhneigingu til að koma listinni á hreyfingu auk hugmyndafræðilegrar nálgunar við að kalla fram samspil við áhorfendur. Margræðni tímans í verkum Ingunnar Fjólu sameinar fortíð, nútíð og framtíð í upplausn línulegs tíma og kallar þannig fram viðstöðulausa upplifun þar sem áhorfendur taka þátt í að skapa stöðugar breytingar.

Þú ert kveikjan felur í sér tímatengda skynjun fortíðar og framtíðar, líkt og saga málverksins heilsi framtíð málverksins, sem sameinast í gegnum skynjun áhorfenda. Návist núsins undirstrikast af þeim eiginleikum verka Ingunnar Fjólu að bregða á leik með áhorfandanum. Verkin endurskapast samtímis og þau koma fyrir sjónir áhorfenda í gegnum gagnvirkni og samspili við rýmið. Verk Ingunnar Fjólu teygja svið málverksins inn í opið kerfi þar sem verkin lifna við fyrir tilstilli áhorfenda og rýmisins. Þú ert kveikjan sem hrindir möguleikum verksins af stað.