Ljósbrot Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur (f. 1976) er innsetning sem hún vinnur í Sverrissal Hafnarborgar. Verkið er gert sérstaklega fyrir þessa sýningu og rými salarins látið móta mörk og innri byggingu þess. Hér mætast þættir sem Ingunn Fjóla hefur áður nýtt í verkum sínum, en það eru bæði litaspil og formrænir fletir módernískra málverka og rýmishugsun sem ögrar skynjun áhorfandans af umhverfinu. Verkið fæst þannig bæði við sjónræna upplifun og líkamlega skynjun þess að ferðast um og skoða.
Ljósbrot kemur fram þegar ljósgeisli er sveigður eða hann brotnar á strendingi. Ljósgeislinn klofnar í frumeindir sínar og má þá greina litaspil sem minnir á regnboga. Ljósbrot Ingunnar Fjólu er sannkallað litaspil sem fyllir sýningarsalinn með fínlegum geislum úr óskilgreindum ljósgjafa. Álstaurar eru uppistöður mislitra strengja sem fylla rýmið og mynda á kerfisbundinn hátt vandfundna leið í gegnum verkið. Strengirnir mynda eintóna litafleti sem fléttast saman og klofna eins og þegar ljós brotnar og klofnar. Verkið er þannig eins konar völundarhús gagnsærra litaflata sem áhorfandinn hefur yfirsýn yfir um leið og litaspil þeirra blandast saman og úr verður heild. Upplifunin af litasamsetningu verksins ræðst af því hvar áhorfandinn er staddur í rýminu og því hvort athygli hans er á því sem næst honum er eða því sem er lengra í burtu. Línur verksins eru sjónrænt áreiti sem mynda eins konar titring í auga. Þegar horft er á margar línur í einu mynda þær ýmist fleti eða greinast sundur. Augað leitast við að búa til heild úr því sem það sér eins og í lagskiptu málverki þar sem sýn áhorfandans er á stöðugu flökti á milli hins nálæga og hins fjarlæga.
Verkið myndar afmarkaðan heim sem lýtur eigin lögmálum þar sem ferðalag áhorfandans og upplifun hans er þungamiðja fagurfræðilegra hugleiðinga. Á ferðalaginu í gegnum verkið er enginn staður mikilvægari en annar en áhorfandinn byggir upp sína mynd, sína kompósisjón. Hálfgagnsæir veggirnir mynda síbreytilegt litaspil í sjónrænni heild og leiða sýningargestinn í gegnum rýmið þannig að hann hverfur inn í nánast óefniskennt geislaflóðið.
Ingunn Fjóla hefur unnið áhugaverð verk á þeim fáu árum sem liðin eru frá því hún lauk námi við Listaháskóla Íslands vorið 2007. Hún hefur unnið stór málverk sem eru bundin ákveðnu rými og verk þar sem hún notar aðferðir málaralistarinnar á þríviða hluti sem áhorfandinn gengur inni í. Áður en Ingunn Fjóla hóf nám við Listaháskólann nam hún málaralist og lauk BA-gráðu í listasögu við háskólann í Árósum. Hún hefur áður haldið tvær einkasýningar tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis, auk þess sem hún hefur sinnt sýningarstjórn og er helmingur listdúósins Hugsteypunnar. Ingunn Fjóla býr og starfar í Hafnarfirði. Árið 2009 hlaut hún hvatningarstyrk Hafnarfjarðarbæjar til ungra listamanna.
Ólöf K. Sigurðardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar