Verk Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur býður áhorfandanum að taka þátt í sýningunni. Skynjun er í sjálfu sér þátttaka, en hér er gengið skrefi lengra og áhorfandanum boðið að hafa áhrif á verkið. Leikurinn og leikgleðin, auk svolítið prakkarlegrar tilvísunar í leikvöllinn, opnar leið inní sjálfan efniðvið verksins og viðfangsefni sýningarinnar. Litur, teikning og flötur, þættir málverksins, eru hér til staðar en hafa tekið á sig aðra virkni – annað hlutverk. Upplifun áhorfanda og skynjun er virkjuð með beinni þátttöku og rými safnsins endurlífgað með einföldu en áhrifaríku inngripi. Því hefur stundum verið haldið fram að það að njóta listaverka sé einhverskonar leikur. Við föllumst á ákveðnar forsendur, eða reglur í leiknum, og í krafti þeirra getum við notið listaverka. Ingunn Fjóla gengur hér skrefi lengra og leikurinn verður kjarni verksins. Leikurinn verður að afli sem knýr fram hreyfingu í verkinu og hefur þannig áhrif á hvernig það er skynjað. Með verkinu vísar Ingunn Fjóla í gagnvirkni og leikjamenningu samtímans.