Týsgallerí 10.07.-03.08. 2014

“The main thing wrong with painting is that it is a rectangular plane placed flat against the wall.” – Donald Judd, “Specific Objects”, 1965.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f.1976), hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir stórar rýmisinnsetningar sínar þar sem samspil listaverksins við rýmið og rýmisskynjun áhorfandans eru jafnan í forgrunni. Tilraunir listamannsins með form, lit og línu leika lykilhlutverk og lokka áhorfandann til hreyfingar og þar með margbreytilegrar skynjunar verkanna. Á sýningunni (Ó)stöðugir hlutir / (Un)steady Objects sýnir Ingunn Fjóla málverk á minni skala en oft áður, þau standa sem sjálfstæð verk en taka líka mið af rýminu og eiga í samtali við það.

Ingunn Fjóla notar akrýlmálningu, ullargarn, nylonþræði og tré sem efnivið til að brjóta upp flatan, tvívíðan heim málverksins. Línan er hér mikilvægur hlekkur í verkum listamannsins líkt og áður. Í sumum verkanna eru þræðir notaðir sem undirlag fyrir málverk í stað hefðbundins striga. Þræðirnir gegna því tvíþættu hlutverki; annars vegar sem undirlag og hins vegar sem sjálfstæður hluti af myndbyggingunni. Málaðir fletir á veggjum gallerísins mynda bakgrunn og þannig teygja verkin sig inn í og mynda samspil við rými gallerísins. Mörk milli bakgrunns og forgrunns verða óljós og erta sjónræna skynjun áhorfandans.

Myndheimur Ingunnar Fjólu er síkvikur og margbreytilegur. Við fyrstu sýn er strangflatar geometrían áberandi; formrænar tilraunir þar sem stíf formfesta og regla byggja upp myndflötinn. En það er ekki allt fyrirfram gefið, nýtt sjónarhorn áhorfandans gefur nýja mynd og nýja skynjun. Áhorfandinn er laðaður til að hreyfa sig og skoða verkin frá fleiri hliðum. Liturinn, formið og línan taka breytingum og birtast á nýjan hátt eftir stöðu áhorfandans. Verkin öðlast hreyfingu og hætta að vera kyrrstæðir hlutir á vegg; stöðugleiki víkur fyrir óstöðugleika

Aldís Arnardóttir