Tvö meginþemu hafa verið gegnumgangandi leiðarstef í listsköpun Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur á undanförnum árum. Annars vegar veltir hún fyrir sér hver sé staða málverksins í samtímanum og hins vegar hinu díalektíska sambandi milli listaverks, áhorfanda og þess rýmis sem verkin eru sýnd í, hvernig þessir þættir virka hver á annan eða hver með öðrum. Verk Ingunnar Fjólu ramba gjarnan á mörkum innsetninga og málverks þar sem andstæðupör togast á; hreyfing/kyrrstaða, stöðugleiki/óstöðugleiki, regla/óreiða og fjalla ekki síst um sambandið sem verður til þar á milli.  Undirliggjandi og það sem knýr Ingunni Fjólu áfram í listsköpun hennar eru ávallt hugleiðingar um fagurfræðilega upplifun áhorfandans og líkamlega skynjun hans sem verður til með hreyfingunni. Á sýningunni Í sjónmáli teflir hún fram málverkum af ólíkum skala, annars vegar gríðarstórri innsetningu í aðalrými Hofs og hins vegar minni málverkum sýndum í afmörkuðu rými.

Í innsetningunni Líkaminn er eina stærðarviðmiðið sem við höfum verður áhorfandinn óhjákvæmilega meðvitaður um rýmið sem hann er staddur í og sinn eigin líkama þegar hann virðir það fyrir sér. Stærð verksins, sem teygir sig hátt til lofts og á í samtali við arkitektúr hússins, ýtir undir meðvitund um líkamlegan mælikvarða áhorfandans og tekur mið af einstaklingsbundinni upplifun hans. Sá sem virðir verkið fyrir sér verður jafnframt næmari fyrir rýminu sem hann er staddur í, það verður áþreifanlegt og raunverulegt. Hið þrívíða rými virkjast með hreyfingu líkamans sem færir sig um og um leið virkjast tengslin milli áhorfandans, verksins og rýmisins. Líkaminn er eina stærðarviðmiðið sem við höfum veltir líka upp spurningum um málverkið sem slíkt – er yfirhöfuð hægt að tala um málverk í eftirmiðlaástandi samtímans? Ingunn Fjóla notar nær eingöngu ýmis konar iðnaðarefni, svo sem múrnet, kaðla og teip sem hún málar að hluta með akrýlmálningu. Samt sem áður er verkið á einhvern augljósan hátt málverk en landamæri málverksins eru stöðugt tekin til endurskoðunar af listamönnum samtímans og reynt á útvíkkun miðilsins sem er síkvikur og lifandi.

Málverkaserían Máluð sjónarhorn reynir á mörk hins tvívíða og þrívíða. Verkin teygja sig út í rýmið og vísa á mismunandi hátt í stöðu sína sem málverk en eru sett saman á óhefðbundinn hátt, þau skapa samtal og rýmistilfinningu, eru bæði hluti af rýminu og taka mið af því í senn. Í verkinu Máluð sjónarhorn (færsla), hefur málaður strigi verið krumpaður og aðeins festur lauslega á tvær hliðar rammans í stað þess að vera strekktur á blindrammann með hefðbundnum hætti. Bakgrunnurinn er rétthyrndur flötur málaður beint á vegg sýningarrýmisins. Hér mætast reglan og óreiðan og togast á. Í verkinu Máluð sjónarhorn (benda) notar Ingunn Fjóla límborinn þráð sem hefur verið grunnaður og málaður en síðan flæktur í hnút sem hangir í horni sýningarrýmisins. Lituðu ljósi er beint að verkinu þar sem undirlag og málning hafa hnoðast saman í þrívítt verk. Ljósið flæðir út á veggina og virkjar þannig rýmið í kringum verkið.

Á sýningunni Í sjónmáli hefur Ingunn Fjóla skapað vettvang þar sem hin fagurfræðilega upplifun ræðst af því hvernig áhorfandinn hreyfir sig um í rýminu og býr þannig til mismunandi sjónarhorn á verkin. Sýningin byggir á samspili sjónrænna áhrifa málverksins og þrívíðri rýmisverkun þeirra. Í gegnum upplifun sína verður áhorfandinn meðvitaður um eigin líkamlegu nærveru og skynjun í sýningarrýminu.

Aldís Arnardóttir