Brynja Sveinsdóttir um sýninguna Hnikun/Shift í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð.

Á sýningunni Hnikun birtast okkur verk eftir Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísi Jóhannesdóttur, sem unnin eru út frá sögu Sláturhússins. Á sýningunni tvinnast saga og umgjörð slátrunar saman við hugmyndir um hvernig við skynjum, hvernig við minnumst þess liðna og viðleitni okkar til að skapa kerfi úr umhverfi okkar. Hnikun markar enduropnun Sláturhússins eftir umfangsmiklar umbætur til að styðja við hlutverk hússins sem menningarmiðstöð. Titill sýningarinnar vísar í hvernig eitt hnikar öðru til – umbreytingu í samfélagi og starfsemi.

Á sýningunni eru textaverk, ljósmyndir, skúlptúrar, textílverk og vídeó sem hverfast um strúktúra sem liðast um rýmið. Strúktúrarnir kallast á við þá vinnslulínu sem áður fyllti salinn og í kringum hann fáum við enduróm þess sem var. Verk Þórdísar Jóhannesdóttur bregða upp glefsum af starfsemi þar sem tími, flæði og ásýnd umhverfis fléttast saman. Hnikun 1-6 er ljósmyndaröð sem sýnir nærmyndir úr vinnslusal sláturhúss. Með nánu sjónarhorni öðlumst við aðra sýn á ferli slátrunar þar sem atburðir umbreytast í liti og áferðir. Við sjáum ummerki um kjötvinnsluna í rauðum flaumum og sjáum skrokka í það miklu návígi að lyktarskyn okkar getur í eyðurnar. Ljósmyndirnar eru unnar á plexígler og ljósi hleypt í gegn svo hver mynd varpast og endurtekur sig í gegnum rýmið. Þessi fjölföldun myndanna minnir á þá endurtekningu og fjöldavinnslu sem á sér stað í sláturhúsi en ljósið gerir myndefnið einnig óskýrara og skapar ásjónu minningabrota og endurvarps fyrri atburða.

Vídeóverk Þórdísar Ferli og Streymi sýna það flæði og síhreyfingu sem á sér stað í vinnslusal sláturhúss. Vatn sem streymir fram í endaleysu og ber með sér sláturúrgang og rauðir flekkir sem falla sífellt á gólfið. Í verkunum sjáum við tímann líða með hreyfingu og endurtekningu – allt er í sífelldri endurnýjun en samtímis breytist lítið sem ekkert. Andstætt síhreyfingunni birtist okkur stilla og kyrrð í ljós[1]myndaverkinu Rýmd 1-5 þar sem við sjáum auð rými. Myndirnar gætu verið af millirýmum þar sem fátt á sér stað, mynd yfirlit sýn. gætu verið ummerki um það sem var en er ekki lengur. Verkin minna á þau rými sem hafa misst fyrra hlutverk og eru í biðstöðu eftir nýjum tilgangi. En hvernig skynjum við tóm rými? Fær stillan okkur til að velta fyrir okkur ásýnd hluta, áferðum og uppstillingu? Færa tóm rými okkur ró eða vekja þau með okkur ugg? Rýmin kallast eflaust á við tilfinningaástand okkar, minningar okkar og reynslu – þau verða líkt og autt blað sem við lesum okkar skilning úr. Í verkum Þórdísar kynnumst við umhverfi slátrunar en fáum einnig að rýna í viðbrögð okkar við því sem við mætum og hvaða merkingu við setjum í sjónræna framsetningu.

Verk Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur byggja á þeim aðferðum, orðfæri og kerfum sem umlykja sauðfjárrækt. Verkið Minningarorð er röð textaverka sem birta orð úr viðtölum við fyrrum starfsmenn Sláturhússins. Fyrirrista, liðléttingar, fláningsmaður, rotklefi, strjúpi – glefsur úr heimi slátrunar eru prentaðar á arkitektapappír sem lagður er í nokkrum lögum svo textinn verður missýnilegur. Orðin, merking þeirra og tengingar verða misljós líkt og minningabrot sem erfitt er að henda reiður á. Í verkinu sjáum við endurspeglun liðins tíma og þess vinnuflæðis sem átti sér stað í rýminu áður fyrr. Verkið Flæði birtir okkur einnig tímann í formi þeirrar sífelldu hreyfingar sem vinnslunni fylgir. Verkið samanstendur af máluðum bómullarþráðum sem hreyfast viðstöðulaust í mótorum og kallast á við vinnslulínu sem heldur áfram í endaleysu. Hreyfingunni fylgir stöðugur niður sem getur verið yfirþyrmandi eða róandi – allt eftir okkar aðkomu að verkinu.

Verk Ingunnar Fjólu, Uppistaða I-III, tvinnar saman efnisheim sauðfjárræktunar og hand[1]verks. Í verkinu sjáum við fléttaðar slöngur úr ull sem væri hægt að nota sem uppistöður í vefstól. Uppistöðurnar eru í náttúrulegum litatónum ullarinnar, sem og lituðum skærum tónum, sem skapar samspil þess náttúrulega og hins manngerða. Uppistöðurnar hanga í hækiljárnum, sem notuð eru til að hengja skrokka á að lokinni slátrun og vísa þannig í það ferli og þær afurðir sem fylgja slátrun. Verkið er einnig vitnisburður um upphaf þar sem gerð uppistöðunnar er fyrsta skref í því langa ferli sem vefnaður er. Uppistöðurnar standa hér stakar og bera með sér fyrirheit um það sem getur orðið.

Veggskúlptúrinn Fallþungi er verk í tveimur einingum þar sem steinar frá nærumhverfinu hanga í grisjum og sýna tvær ólíkar þyngdir. Verkið vísar í þá þróun sem hefur orðið í fallþunga dilka síðastliðin 74 ár eða frá þeim tíma þegar sláturhúsið var byggt til nýjustu mælinga. Árið 1947 var meðalþyngd dilka 14.2 kg og árið 2021 var meðalþyngdin orðin 17.4 kg. Þessi þróun hefur orðið með ræktun þar sem áhersla er lögð á að hámarka getu – við viljum alltaf gera betur og fá meira. Verkið vekur okkur til umhugsunar um hvort magn jafngildi alltaf gæðum. Hvernig mælum við árangur? Hvers virði er sífelld leit okkar að hámörkun?

Pappírsverkið Bestun vísar einnig í árangurs[1]mælingar með upplýsingum úr kynbótamati níutíu sæðingarhrúta frá árinu 1949 til dagsins í dag. Upplýsing-arnar eru fengnar úr skráningarkerfinu Fjárvís sem sauðfjárbændur skrá í gögn um það sauðfé sem þeir rækta. Í framsetningu Ingunnar Fjólu eru upplýsingar settar fram á þann máta að úr verður eins konar hjartalínurit sem sýnir ekki eiginleg gögn heldur línuteikningu, takt og form. Verkið opnar augu okkar fyrir þeirri nákvæmni, skráningu, utanumhaldi og eftir[1]fylgni sem fylgir sauðfjárrækt. Við hvert viðfangsefni hefur maðurinn skapað sér kerfi, leiðir til að kortleggja, verðmeta, skrásetja og skilgreina. Við viljum geta mælt, skráð árangur og betrumbætt aðkomu okkar að umheiminum.

Í verkum Ingunnar Fjólu og Þórdísar birtist sauðfjárrækt okkur sem menning með sínu tungutaki, sérþekkingu og sértæku aðferðum. Sú vinnsla sem áður átti sér stað í húsinu endurvarpast í annars konar vinnslu menningar. Í stað mælinga og skráninga á búfénaði verða listaverk sköpuð, sett fram og skrásett. Í stað viðleitni til að auka fallþunga dilka verður leitast við að auka áhrif og aðsókn menningarstarfsins. Í stað vinnuflæðis við vinnslulínu tekur við rólegur og óreglulegur gangur gesta um sýningar. Fyrri starfsemi Sláturhússins endurómar í þeirri menningarvinnslu sem tekin er við.