Karina Hanney Marrero, listfræðingur

Innsetninguna Ekkert er víst nema að allt breytist má skoða sem hugleiðingu og jafnvel óð Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur til þeirrar kerfishugsunar sem einkennt hefur verk hennar til þessa. Í verkum sínum hefur Ingunn mótað hugmyndakerfi og myndmál sem sækir innblástur í ólík þekkingarkerfi; hvort sem þau eru tæknileg eða tilvistarleg, útópísk, stærðfræðileg eða heimspekileg, þá greinir Ingunn sammannlega þræði þeirra og nýtir í verk sín. Innsetningin sameinar nú margþættan hugmyndaheim hennar sem myndar vistfræðilega opið kerfi verksins. 

Litasamsetningar og litakerfi skipa mikilvægan sess í verkum Ingunnar enda er sterk litanotkun áberandi auðkenni margra þeirra. Í salnum má sjá kunnuga litapallettu; rauða, græna og gula litatóna á veggjunum sem leiða hugann að litum hefðbundinna umferðarljósa. Í innsetningunni kallast þessir litir á við dimm fjólubláa rammana í rýminu og spilar Ingunn þannig á skynheim áhorfandans. Þessir sömu litir, rauður, grænn og gulur, eru einnig mikilvægir í siglingafræðum og mynda grunninn í merkjakerfi siglingaljósa og vita. Þannig beinir Ingunn athyglinni að þeim merkjakerfum sem maðurinn hefur þróað og þá sérstaklega hamlandi eða hjálplegum áhrifum þeirra. 

Annað sameinandi stef í verkum Ingunnar er talnafræði. En bæði hljóðheimur verksins og nákvæmlega útreiknuð uppsetningin á römmunum í salnum fylgja ákveðnu talnakerfi sem myndar tiltekna hrynjandi í verkinu. Hljóðheimur verksins myndast út frá síbylju mótora og reglulegum slætti mótorknúinna hamra á píanóstrengi. Mótorarnir slá með misjöfnu millibili yfir daginn, einn slær á mínútu fresti, næsti á tveggja mínútna fresti, þriðji á þriggja mínútna fresti og svo framvegis. Í upphafi dags slá þeir allir samtímis og svo aftur á klukkutímafresti yfir daginn. Niðandi hljóðvist verksins breytist því eftir því hvenær á daginn sýningin er sótt. Loks eru það ljósin sem mynda sólarupprás og sólsetur eða manngert sólkerfi rýmisins sem segja má að myndi öllu mýkra stef í verkinu.

En þrátt fyrir vísbendingar um innblástur Ingunnar er erfitt að tengja innsetninguna aðeins við siglingafræði, talnafræði eða neitt annað tiltekið þekkingarkerfi ef út í það er farið. Enda snýr kerfislæg hugsun hennar að miklu leyti að framkvæmd verksins, ásýnd þess, upplifun, og uppsetningu fremur en nákvæmri endurgerð á efnistökum ákveðinna hugmynda. Uppruni hugmyndanna myndar aðeins kunnugleg tákngildi við undirrót verksins fremur en að vera hugmyndafræðilegur lykill þess, en tákngildin eru engu að síður áhugaverðir viðaukar. Með því að velta upp eða vísa í ólík kerfi þá myndar verkið vettvang til að bera saman og skoða sameiginlega fleti þeirra í víðu samhengi. Þannig skapar Ingunn samtal á milli siglingafræða og talnafræði; á milli hugrenninga áhorfandans og eigin hugarheims; á milli hugmynda um persónulegt frelsi og miðstýringu verksins.

Viðvera, skynjun og þátttaka áhorfandans gegnir veigamiklu hlutverki í verkum Ingunnar. Ef litið er til verksins Þú ert kveikjan (2019–2022), gefur titill þess til kynna að áhorfandinn er hugsaður sem virkur þátttakandi í raun og reynd og honum boðið að hafa áhrif á verkið með beinum hætti. Í núverandi innsetningu Ekkert er víst nema allt breytist er þessum hlutverkum ruglað. Innsetning stýrist af mismunandi þáttum, annars vegar innbyggðu kerfi verksins og hins vegar gagnvirkni áhorfandans og því óljóst hver aflvaki verksins er hverju sinni. Áhorfandanum getur virst sem hann hafi áhrif á framvindu verksins en í raun eru áhrif hans takmörkuð og jafnvel tilviljunarkennd. 

Í sýningarsalnum skarast margir af þeim ólíku miðlum og kerfum sem Ingunn vinnur með og mynda saman nýjan heim; opið kerfi sem áhorfandanum er velkomið að heimsækja. Lögmál þessa heims eru óljós, myndmál kunnuglegt og skynhrifin áleitin. Í samfélagslegu samhengi vísar innsetningin í þau tæknilegu og hugmyndafræðilegu kerfi sem stýra, leynt og ljóst, mannfólkinu og heiminum í heild. Í tilvistarlegu samhengi veltir verkið upp spurningum um hvert sjálfstæði, áhrifamáttur og forráð einstaklingsins eða áhorfandans raunverulega sé. Í vestrænu samfélagi er talið að við búum við einstaklingsfrelsi, en auðvitað er ekkert víst nema að allt breytist.