Í verkinu Afstaða til kyrrstöðu bregður Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir á leik og býður sýningargestum að skapa verkið með sér. Hugmyndin að uppsetningunni og undirbúningurinn er hennar eigin, en gestirnir sjá um að framkvæma gjörninginn; með þátttöku sinni setja þeir verkið upp í rýminu. Listaverkið verður tenging á milli listamannsins og áhorfenda.

Íhlutir verksins eru bómullarþræðir litaðir með akrýlmálningu sem bundnir eru við hvítar blöðrur blásnar upp með helíum. Við komuna fá gestir afhenta blöðru með þræði; þátttaka þeirra felst í að sleppa blöðrunum innan sýningarrýmisins og skapa þannig síbreytilega myndbyggingu verksins. Málverk er undirliggjandi stef í verkum Ingunnar Fjólu. Í þetta sinnið vísar hún í málverkið með því að bera málningu á bómullarþræðina eins og um striga væri að ræða.

Í sýningunni er Ingunni Fjólu umhugað um að sleppa takinu af myndbyggingunni og fagurfræðinni sem hún hefur hingað til stýrt af mikilli nákvæmni í verkum sínum. Hún fær sýningargestina til að annast framkvæmdina fyrir sig og skapa þannig innbyrðis hlutföll verksins. Fagurfræði verksins veltur á heildarmynd þess, byggðri upp með litunum sem Ingunn Fjóla valdi á þræðina og uppröðun þeirra sem áhorfendur sjá um.

Skynjun áhorfenda er Ingunni Fjólu mikilvæg. Hún hugsar verkið sem leikvöll þar sem spilaður er fagurfræðilegur leikur. Samspil litanna verður óræð gáta og einnig hvernig áhorfendur skynja samsetningu þeirra. Koma þeir til með að blandast saman og mynda nýja liti? Hversu margir þræðir koma til með að vera í rýminu fer eftir fjölda þátttakenda, en leiða má að því líkum að því fleiri sem lituðu þræðirnir verða, þeim mun ríkari verða sjónræn áhrif þeirra.

Jófríður Benediktsdóttir