Statement (ekki í notkun)

(Scroll down for English)

Ég vinn í margskonar miðla, en segja má að málverkið og malerísk nálgun sé oftast útgangspunktur í verkunum. Ég hef verið að rannsaka tölur, stærðir og hlutföll í formalískum óhlutbundnum verkum sem ýmist taka á sig tví- eða þrívíða mynd. Verkin eru oftast stór rýmisverk þar sem áhorfandinn gengur inní verkið, ferðast um það og upplifir með öllum líkamanum. Inní þetta blandast hugmyndir um tengsl milli myndlistar, arkitektúrs og hönnunar. Tímahugtakið er mér einnig hugleikið og sérstaklega upplifun áhorfandans á staðnum “hér og nú”. Ég leitast við að búa til skynáhrif þar sem áhorfendur týna sér í verkunum og gleyma á meðan áhyggjum og amstri hversdagsins.

Síðastliðin ár hef ég einnig unnið í nánu samstarfi við Þórdísi Jóhannesdóttur myndlistarmann, en saman myndum við tvíeykið Hugsteypuna. Á meðan ég hef bakgrunn í málverki hefur Þórdís aðallega fengist við ljósmyndun. Báðar höfum við unnið út frá miðlunum sjálfum á rannsakandi hátt og leitast við að finna á þeim nýja fleti. Í upphafi mættust verk okkar aðallega í formum og strúktúrum þar sem gerðar voru tilraunir með sjónræna upplifun. Þessi fyrstu verk voru einskonar sambland af málverki og ljósmyndun í innsetningaformi, þar sem við vorum að velta fyrir okkur sjónmenningu, frumleika, höfundarrétti og trausti sem og ferli sköpunar gagnvart hinu fullkláraða verki. Undanfarið höfum við beint sjónum okkar að söfnun og flokkun, bæði náttúruafurða og menningarafurða, og hvernig þessir þættir eru settir fram á söfnum landsins eftir til þess gerðum kerfum.

I am a visual artist working and living in Iceland.  Besides my individual projects and exhibitions I have enjoyed working in collaboration with Thordis Johannesdottir as the artist duo Hugsteypan.